5G er framtíðin – við viljum vera fyrst á staðinn

24.09.18 | Fréttir
Digitalisering og iphone
Photographer
Jordan McQueen
Ráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna munu koma saman í Ríga á næstunni, ásamt frumkvöðlum úr upplýsingatækni- og fjarskiptageirunum og stjórnvöldum sem koma að stafrænni þróun. Til umfjöllunar verða þau tækifæri sem þróun 5G-farsímanets hefur í för með sér fyrir einstaklinga og fyrirtæki í þessum löndum. Markmiðið er að þessi heimshluti verði fararbroddi í framþróun á þessu sviði.

Samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna um stafræna þróun er einstakt og það tryggir jafnframt stöðu þessa heimshluta á alþjóðvísu þegar kemur að samþættum, stafrænum lausnum, þvert á landamæri. Styrkur okkar liggur í því hversu margt löndin eiga sameiginlegt, í miklum stafrænum þroska landanna og viljanum til að deila þekkingu. 

Þar sem ráðherrarnir og sérfræðingarnir mætast

5G Techritory-ráðstefnan, sem haldin verður dagana 27. og 28. september, er gott dæmi um hið nána samstarf milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Með viðburðinum er skapaður vettvangur fyrir ráðherra, frumkvöðla í stafrænni þróun og úr upplýsingatækni- og fjarskiptageirunum, til að koma saman.

Það er því sjálfsagt að hópur með helstu frumkvöðlum í stafrænni þróun á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum hittist einnig í Ríga til að ræða innleiðingu þeirra sameiginlegu pólitísku markmiða um stafræna þróun sem uppi eru á svæðinu. Lykilatriði í dagskránni er sameiginleg aðgerðaráætlun fyrir Norðurlönd og Eystrasaltsríkin um innleiðingu 5G-farsímanets.

Siðferðisleg álitamál

Einnig er á dagskrá sameiginleg aðgerðaráætlun fyrir Norðurlönd og Eystrasaltsríkin um gervigreind, sem fylgir eftir þeirri pólitísku yfirlýsingu sem áður hefur verið sett fram um málefnið. Áhersla verður lögð á að deila þekkingu um hvernig við getum mótað löggjöf um gervigreind; á annan bóginn má löggjöf ekki hægja á þróuninni en á hinn bóginn þurfa tiltekin siðferðisleg atriði að vera tryggð. Þetta málefnasvið er Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, sérstaklega hugleikið.

Norðurlönd og Eystrasaltsríkin hafa unnið sameiginlega aðgerðaáætlun um forystu í stafrænni þróun. Í þeim umræðum um siðferðisleg álitamál sem nú stendur yfir, getum við lagt fram mikilvægar leiðbeiningar

Dagfinn Høybråten

5G Techritory-ráðstefnan markar tímamót. Um árabil hefur tæknigeirinn sætt hörðum ásökunum um að hafa skaðleg áhrif á lýðræðið, um einokunarmyndun, skattsvik og brot á friðhelgi einstaklinga - nú er tími til kominn að einblína á lausnir.