Umræða um málefni líðandi stundar: Framtíðarsamstarf Norðurlanda í samgöngumálum

09.04.24 | Viðburður
Umræða um málefni líðandi stundar um framtíðarsamstarf Norðurlanda í samgöngumálum á þemaþingi Norðurlandaráðs 2024 í Færeyjum. Hér má lesa um umræðurnar.

Upplýsingar

Dates
09.04.2024
Time
10:45 - 11:45
Location

Hotel Føroyar
Oyggjarvegur 45
Tórshavn
Færeyjar

Type
Umræðufundur

Ríkisstjórnir norrænu landanna hafa komið sér saman um þá framtíðarsýn að árið 2030 skuli Norðurlönd vera „sjálfbærasta og samþættasta svæði heims“. Þetta metnaðarfulla markmið kallar á að sjónum verði beint að samstarfi á sviði innviða og samgöngumála. Norðurlandaráð hefur í mörg ár þrýst á norrænu löndin að auka samstarfið þegar kemur að stórum verkefnum á sviði samgöngumála og innviða með stofnun sérstakrar ráðherranefndar um samgöngumál innan Norrænu ráðherranefndarinnar.

Aukin samræming skiptir sköpum ef Norðurlöndum á að takast að ná markmiðum forsætisráðherranna fyrir árið 2030. Framtíðarsýnin krefst þess að norrænu löndin samræmi stefnu sína til þess að skapa sjálfbærar samgöngulausnir á sjó, landi og í lofti, meðal annars í tengslum við rafvæðingu hafna, skipaflota og flugsamgangna, sjálfbæra vöruflutninga og norræna áætlun um háhraðalestir. Við á Norðurlöndum lítum á okkur sem brautryðjendur í hinum grænu umskiptum. Norrænu forsætisráðherrarnir hafa sett sér það markmið að draga úr koldíoxíðslosun um 50 prósent fyrir árið 2030. Það er háleitt markmið og orðin tóm duga ekki til þess að uppfylla framtíðarsýnina heldur verður að vinna hörðum höndum að því alla daga að finna lausnir til þess að ná markmiðunum.

Norrænu löndin standa einnig frammi fyrir miklum úrlausnarefnum þegar kemur að uppbyggingu innviða, bæði með tilliti til úrbóta á þeim samgöngukerfum sem til eru og uppbyggingu nýrra til þess að skapa sjálfbærari og aðgengilegri Norðurlönd fyrir jafnt atvinnulífið sem almenning. Þar sem flest þessara úrlausnarefna teygja sig yfir landamæri ættu norrænu löndin að hafa samræmda stefnu um það hvernig beri að takast á við þau í sameiningu, ekki síst vegna þess að við uppbyggingu innviða þarf einnig að taka mið af aukinni þörf á hreyfanlegum herafla í tengslum við það að öll norrænu löndin eru nú aðilar að NATO.

Fjallað verður um þessi sameiginlegu úrlausnarefni í pallborðsumræðum með þátttakendum sem búa yfir mismunandi reynslu og hafa ólík sjónarhorn á uppbyggilegar lausnir þegar kemur að framtíðarsamstarfi Norðurlanda á sviði samgöngumála.

Umræðurnar hefjast á viðtali við Gunnar Lindberg, sérfræðing, sem fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar hefur gert úttekt á norrænu samstarfi í samgöngumálum með skýrslunni „Forsendur aukins samstarfs á sviði samgöngumála og innviða“.

Í kjölfarið fara fram pallborðsumræður þar sem þátttakendur greina frá sinni sýn á þau úrlausnarefni sem Norðurlönd munu standa frammi fyrir í tengslum við innviði, græn umskipti og aðild að NATO.

Pallborðið skipa:

Liv Kari Eskeland, Norðurlandaráði, norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndinni 

Jessika Roswall, samstarfsráðherra Svíþjóðar 

Erik Østergaard, formaður Nordic Logistics Association 

Thomas Becker, framkvæmdastjóri STRING 

Niklas Johansson, framkvæmdastjóri, samskipta- og loftslagsmál, LKAB 

 

Fundarstjóri: Jan Wifstrand 

Þingmönnum Norðurlandaráðs gefst kostur á að taka virkan þátt í umræðum.