Alma – Ísland

Alma, 2021, Filmprize
Photographer
DUOProductions
Íslenska kvikmyndin „Alma“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Eftir að hafa séð föður sinn myrtan á hrottalegan hátt flúði hin þriggja ára Alma stríðshrjáð heimaland sitt ásamt móður sinni og settist að á Íslandi. Nú, 25 árum síðar, afplánar Alma fangelsisdóm á lokaðri geðdeild fyrir að hafa myrt kærasta sinn, þó að sjálf muni hún ekkert eftir glæpnum. En þegar Alma kemst að því að kærasti hennar er enn á lífi ákveður hún að brjótast út og drepa hann eftir allt saman.

Rökstuðningur

Líkt og allar hinar konurnar sem vistaðar hafa verið með henni á lokaðri glæpageðdeild hefur Alma verið dæmd fyrir morð á karlkyns maka sínum. Fyrir þessum konum stendur efnahagshrunið 2008 fyrir mögulegt hrun feðraveldisins, en í skjóli þess hefur konum verið misþyrmt, nauðgað og haldið niðri gegnum aldirnar án þess að þær hafi notið ávaxta þess kerfis á nokkurn hátt. Þessi líking rammar inn margslungna frásögnina með áhrifamiklum hætti.

Það sem hefst eins og hefndarsaga í anda noir-mynda verður að fallegri ástarsögu sem hverfist um vegferð þolanda ofbeldis gegnum áföll og sorg uns hún enduruppgötvar loks rætur sínar og eigin sérstöku rödd.

Með beittum húmor og sláandi myndmáli sameinar Alma með fimlegum hætti ákafa ljóðræna sýn og samfélagsgagnrýnið femínískt sjónarhorn.

Handritshöfundur/leikstjóri – Kristín Jóhannesdóttir

Kristín Jóhannesdóttir (1948) er gamalreyndur leikstjóri kvikmynda og leikverka.Hún lauk meistaragráðu í bókmenntafræði og kvikmyndafræði frá Paul-Valéry-háskólanum í Frakklandi og gráðu í kvikmyndaleikstjórn frá Conservatoire Libre du Cinéma Français í Frakklandi. Kristín leikstýrði fyrstu mynd sinni, Á hjara veraldar, árið 1982. Önnur mynd hennar, Svo á jörðu sem á himni, var valin til sýningar utan keppni á kvikmyndahátíðinni í Cannes 1992 og hlaut í framhaldinu 12 alþjóðleg verðlaun. Einnig hefur hún leikstýrt tónlistarmyndböndum, sjónvarpsmyndum og útvarpsleikritum og sett fjölda verka á svið í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu.

Kristín hefur setið í inntökunefnd Listaháskóla Íslands. Frá 2015–2018 var hún meðlimur í Kvikmyndaráði Íslands, sem skipað er í af mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Framleiðandi – Guðrún Edda Þórhannesdóttir

Guðrún Edda Þórhannesdóttir (1969) stofnaði framleiðslufyrirtæki sitt, Tvíeyki (Duo Productions), árið 2006. Samhliða því rekur hún fyrirtækið Spellbound Productions, sem hún stofnaði 2009 ásamt Friðriki Þór Friðrikssyni.

Guðrún Edda útskrifaðist frá Cambridge-háskóla á Englandi með BA- og MA-gráðu í bókmenntafræði og sagnfræði. Síðar nam hún kvikmyndafræði við bresku kvikmyndastofnunina og Lundúnaháskóla. Undanfarin 13 ár hefur hún framleitt yfir tug stuttmynda, kvikmynda í fullri lengd og sjónvarpsþáttaraða sem hlotið hafa lof um allan heim. Þar á meðal eru Sveitabrúðkaup (2008), fyrsta kvikmyndin í fullri lengd sem leikstýrt var af hinum þekkta kvikmyndaklippara Valdísi Óskarsdóttur (Eternal Sunshine of the Spotless Mind), Mamma Gógó eftir Friðrik Þór Friðriksson og sjónvarpsþáttaröðin Tími nornarinnar. Hún meðframleiddi ásamt fleirum myndina sem hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2014, Hross í oss eftir Benedikt Erlingsson, myndirnar Hemma og Vesalings elskendur eftir Maximilian Hult, þáttaröðina Líf eftir dauðann eftir Veru Sölvadóttur og End of Sentence eftir Elfar Aðalsteinsson. Kvikmyndin Alma eftir hinn gamalreynda leikstjóra Kristínu Jóhannesdóttur var frumsýnd á Íslandi þann 7. maí 2021.

Guðrún hefur gegnt margvíslegum störfum innan kvikmyndabransans, svo sem stöðu framkvæmdastjóra Kvikmyndahátíðar í Reykjavík og stöðu yfirmanns almannatengsla hjá Íslensku kvikmyndamiðstöðinni, og hefur einnig séð um innkaup á erlendu efni fyrir RÚV.

Framleiðandi – Friðrik Þór Friðriksson

Friðrik Þór Friðriksson (1954) er einn þekktasti kvikmyndagerðarmaður og framleiðandi Íslands. Hann rekur framleiðslufyrirtækið Spellbound ásamt Guðrúnu Eddu Þórhannesdóttur.

Friðrik Þór hefur verið einn af drifkröftunum í þróun íslensks kvikmyndaiðnaðar síðan á 9. áratug tuttugustu aldar og gegnir enn lykilhlutverki við að koma ungu hæfileikafólki á framfæri í starfi sínu sem framleiðandi. Hann varð þekktur víða um heim fyrir aðra kvikmynd sína í fullri lengd, Börn náttúrunnar (1991), sem var framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna í flokki erlendra mynda. Á meðal annarra mynda hans sem hlotið hafa lof eru Á köldum klaka, Bíódagar, Englar alheimsins, Djöflaeyjan og Mamma Gógó.Friðrik Þór er enn afkastamikill sem framleiðandi. Á meðal leikstjóra sem hann hefur starfað með eru Ragnar Bragason (Fíaskó, 2000), Hal Hartley (Skrímsli, 2001), Hilmar Oddsson (Kaldaljós, 2004), Benedikt Erlingsson (Hross í oss, hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2014), og Ari Alexander Ergis Magnússon (Undir halastjörnu, 2018). Nýjasta myndin sem hann framleiddi fyrir Spellbound, Alma, var frumsýnd á Íslandi í maí 2021.

Framleiðandi – Egil Ødegård

Norski framleiðandinn Egil Ødegård (1961) er yfirmaður alþjóðlega framleiðsluþjónustu- og efnissköpunarfyrirtækisins Evil Doghouse Productions, sem er móðurfélag hins rótgróna „arthouse“-dreifingarfyrirtækis Europa Film.

Ødegård lagði stund á háskólanám í sagnfræði, fjölmiðlafræði og menningarstjórnun. Hann framleiddi fyrstu kvikmynd sína í fullri lengd 1989/90 og hefur síðan þá framleitt eða meðframleitt yfir 40 myndir, þar á meðal flestar kvikmyndir Friðriks Þórs Friðrikssonar og nokkrar af myndum Baltasars Kormáks, svo sem Djúpið, sem tilnefnd var til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2013. Alma er nýjasta myndin sem hann framleiðir. Hann er meðlimur i Evrópsku kvikmyndaakademíunni.

Upplýsingar um myndina

Titill á frummáli: Alma

Titill á ensku: Alma

Leikstjóri: Kristín Jóhannesdóttir

Handritshöfundur: Kristín Jóhannesdóttir

Aðalhlutverk: Snæfríður Ingvarsdóttir, Emmanuelle Riva, Kristbjörg Kjeld, Hilmir Snær Guðnason

Framleiðendur: Guðrún Edda Þórhannesdóttir , Friðrik Þór Friðriksson, Egil Ødegård

Framleiðslufyrirtæki: Duo Productions

Lengd: 96 mínútur

Dreifing í heimalandi: Sena