Verdens verste menneske - Noregur

NO Verdens verste menneske
Photographer
Oslo Pictures
Norska myndin „Verdens verste menneske“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Julie nálgast þrítugt og er í tilvistarkreppu. Hæfileikar hennar hafa farið fyrir ofan garð og neðan og gamli kærasti hennar, Aksel, framgangsríkur myndasöguhöfundur vill að þau komi sér fyrir og stofni heimili. Kvöld eitt gerist hún boðflenna í brúðkaupsveislu og hittir hinn unga og heillandi Eivind. Áður en langt um líður hættir hún með Aksel og fleygir sér inn í enn eitt sambandið í von um að ná nýrri nálgun á tilveruna. En fljótlega uppgötvar hún að sumir af valkostum lífsins eru þegar fyrir bí.

Rökstuðningur

Verdens verste menneske er angurvær frásaga af hinni tæplega þrítugu Julie, sem er sögð í formi rómantískrar gamanmyndar. Kvikmyndin leikur sér að hefðbundnum klisjum og aðferðum við kvikmyndagerð með þeim hætti að til verður bíóupplifun sem tekur sig alvarlega, með allt sem því fylgir: stórkostlegum senum, tónlistarupplifun og sumarbirtunni í Óslóborg. Myndin fangar tíðarandann og umhverfið um leið og hún getur verið tímalaus og almenn. Ásamt meðhöfundi sínum, Eskil Vogt, sem á heiðurinn af tveimur bestu norsku kvikmyndum ársins, hefur leikstjórinn Joachim Trier og glæsilegur leikarahópurinn (Renate Reinsve, Anders Danielsen Lie og Herbert Nordrum) fangað skemmtilegt, rómantískt og heillandi augnablik sem hefur verið umtalað og verður lengi í minnum haft.

Handritshöfundur og leikstjóri – Joachim Trier

Joachim Trier (fæddur 1974) er einn af vinsælustu kvikmyndagerðarmönnum Noregs í dag. Hann er meðeigandi í framleiðslufyrirtækinu Don’t Look Now.

Hann lagði stund á kvikmyndanám í European Film College í Danmörku og útskrifaðist fá National Film and Television School í Bretlandi. Hann hlaut alþjóðlega viðurkenningu með fyrstu kvikmynd sinni í fullri lengd, Reprise (2006). Önnur mynd hans, Oslo, August 31st var valin til sýningar í flokknum Un Certain Regard í Cannes árið 2011. Fjórum árum síðar tók fyrsta kvikmyndaverkefni hans á ensku, Louder Than Bombs, þátt í aðalsamkeppninni á Cannes. Að lokinni kvikmyndinni Thelma leikstýrði Trier heimildarmyndinni The Other Munch ásamt bróður sínum Emil Trier. Verdens verste menneske er fimmta kvikmynd hans í fullri lengd og jafnframt sú fimmta til að hljóta tilnefningu til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Verðlaunin féllu honum í skaut árið 2015 fyrir myndina Louder than Bombs.
 

Verdens verste menneske var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2021 þar sem hún hlaut verðlaun fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki (Renate Reinsve). Myndin hélt svo áfram að sópa að sér verðlaunum og hlaut tvær Óskarstilnefningar árið 2022, fyrir besta frumsamda handrit og sem besta erlenda kvikmyndin. Trier var forseti Critics Week í Cannes árið 2018 og meðlimur í aðaldómnefnd kvikmyndahátíðarinnar árið 2022.

Handritshöfundur – Eskil Vogt

Eskil Vogt (fæddur 1974) er rithöfundur, leikstjóri og meðeigandi að framleiðslufyrirtækinu Don’t Look Now. Hann lagði stund á leikstjórn við La Fémis kvikmyndaskólann í Frakklandi og vann sín fyrstu verðlaun fyrir stuttmyndina An Embrace árið 2003.

Samstarfs hans og Joachim Trier til margra ára hefur fært þeim alþjóðlega viðurkenningu.
Fyrsta kvikmynd Eskil Vogt í fullri lengd var Blind sem hann vann verðlaun fyrir besta handritið á Sundance kvikmyndahátíðinni árið 2014. Sama ár var myndin tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Önnur kvikmynd hans í fullri lengd, The Innocents, var valin í flokkinn Un Certain Regard í Cannes og hlaut í kjölfarið níu verðlaun, þ. á m. dönsku Roberts-verðlaunin sem besta kvikmyndin á erlendu máli.

Framleiðandi – Thomas Robsahm

Thomas Robsahm (fæddur 1964) er framleiðandi, leikstjóri, tónlistarmaður og fyrrum leikari sem býr yfir meira en 30 ára reynslu úr kvikmyndum og sjónvarpi. Hann starfar nú hjá Nordisk Film Production í Noregi.

Thomas Robsahm hefur komið að framleiðslu kvikmynda nokkurra helstu kvikmyndagerðarmanna Noregs, m.a. Joachim Trier, Margreth Olin, Maria Sødahl, Solveig Melkeraaen, Jannicke Systad Jacobsen, Unni Straume og Emil Trier.
Á meðal þekktustu verkefna hans eru S.O.S (1999), Modern Slavery, (2009) sem hann framleiddi með Tina Davis, Louder than Bombs (2015), Thelma (2017) eftir Joachim Trier, sem og Verdens verste menneske sem hlaut tvenn Óskarsverðlaun árið 2022.

Síðasta verkefni hans A-ha-The Movie sem hann framleiddi og leikstýrði ásamt Aslaug Holm, var heimsfrumsýnd á Tribeca-kvikmyndahátíðinni árið 2021.
 

Framleiðandi – Andrea Berentsen Ottmar

Andrea Berentsen Ottmar (fædd 1990) er framleiðandi sem hefur unnið að meira en 30 kvikmyndum, tónlistarmyndböndum og heimildarmyndum. Hún hefur starfað fyrir framleiðslufyrirtækin Ape& Bjørn, Frokost Film og Oslo Pictures. Hún framleiddi Verdens verste menneske í leikstjórn Joachim Trier og Sick of Myself eftir Kristoffer Borgli, sem valin var í flokkinn Un Certain Regard á Cannes árið 2022. Um þessar mundir vinnur hún að kvikmyndinni Armand, í leikstjórn Halfdan Ullmann Tøndel, sem er rísanda stjarnar í Noregi og barnabarn Liv Ullmann og Ingmar Bergman.

Production information

Titill á frummáli: Verdens verste menneske

Leikstjóri: Joachim Trier

Handritshöfundur: Joachim Trier, Eskil Vogt

Aðalhlutverk: Renate Reinsve, Anders Danielsen Lie, Herbert Nordrum, Hans Olav Brenner

Framleiðendur: Thomas Robsahm, Andrea Berentsen Ottmar

Framleiðslufyrirtæki: Oslo Pictures

Lengd: 127 mínútur

Dreifing í heimalandi: SF Studios

Alþjóðleg dreifing: MK2 Films