Krigsseileren – Noregur

Krigsseileren
Photographer
Mark Cassar
Kvikmyndin „Krigsseileren“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Sjómaðurinn Alfred Garnes á eiginkonu að nafni Cecilia og er nýorðinn þriggja barna faðir. Þegar önnur heimsstyrjöld brýst út er hann ásamt Sigbjørn Kvalen, æskuvini sínum sem kallaður er Wally, við störf á kaupskipi úti á miðju Atlantshafi. Þeir eru óbreyttir borgarar og óvopnaðir, en neyðast til að sigla áfram í framvarðarlínu stríðs sem þeir báðu aldrei um að berjast í. Alfred og Sigbjørn berjast fyrir lífi sínu í hringiðu ofbeldis og dauða þar sem þýskir kafbátar geta þegar minnst varir ráðist á skip þeirra, sem hlaðið er farmi sem getur ráðið úrslitum fyrir Bandamenn í stríðinu. Stríðssjóararnir hafa eitt markmið: Að lifa af – til að komast heim. Um leið baslar Cecilia, kona Alfreðs, við það að sjá ein fyrir þremur börnum í hersetnu landi. Breskar sprengjuflugvélar reyna að sprengja upp þýskt kafbátaskýli í Björgvin en hitta þess í stað grunnskóla í Laksevåg og heimili óbreyttra borgara í Nøstet, sem verður til þess að hundruð óbreyttra borgara láta lífið. Alfred og Wally eru í Kanada þegar þessar fregnir berast og þeim skilst að heima bíði þeirra kannski ekkert lengur.

Rökstuðningur

Með Krigsseileren hefur leikstjórinn og handritshöfundurinn Gunnar Vikene skapað epíska stórmynd um seinni heimsstyrjöldina sem skilar innilegri og trúverðugri lýsingu á þeim mannlegum fórnum sem fylgja stríðsrekstri. Þær frumlegu listrænu ákvarðanir sem teknar eru við gerð myndarinnar skila sér í margbrotinni frásögn sem teygir sig lengra en gengur og gerist í stríðsmyndum. Verkafólkið fær ekkert að segja um sínar aðstæður og við kynnumst því hvernig áföll tengd stríði verða óbærileg. Þannig á myndin erindi langt umfram hið sögulega samhengi sitt. 

Í miðpunkti frásagnarinnar eru tveir vinir sem lenda í ómanneskjulegum prófraunum og standa frammi fyrir ómögulegu vali. Þeir eru leiknir af tveimur af fremstu leikurum Norðmanna, Kristoffer Joner og Pål Sverre Hagen, sem sýna afar góða frammistöðu. Nærgöngul myndataka Sturlu Brandth Grøvlen og aðdáunarverð hljóðhönnun skila ógnvænlegri en jafnframt hjartnæmri frásögn þar sem áhorfandinn er hrifinn með út á hið stórkostlega og lífshættulega haf, inn í þröngt vélarrýmið og tilveruna uppi á landi.

Handritshöfundur og leikstjóri – Gunnar Vikene

Gunnar Vikene (f. 1966) er handritshöfundur og leikstjóri með aðsetur í Bergen. Hann sló fyrst í gegn árið 2002 með fyrstu kvikmynd sinni í fullri lengd, Himmelfall, sem hlaut áhorfendaverðlaun á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck í Þýskalandi. Næstu myndir hans, Trigger (2007) og Vegas (2009), slógu einnig í gegn á kvikmyndahátíðum og hlutu lof gagnrýnenda. Því næst leikstýrði Vikene háðsádeilunni Her er Harold (2014) áður en hann sneri sér að leiknu sjónvarpsefni með Grenseland, sem aflaði honum verðlauna sem besti leikstjóri á norsku sjónvarpsverðlaununum Gullruten. Hann kom einnig að hinum vinsælu þáttaröðum Okkupert (2020) og Pørni (2021). Metnaðarfyllsta kvikmynd hans í fullri lengd til þessa, Krigsseileren, var vinsælasta myndin í Noregi árið 2022 og framlag Norðmanna til Óskarsverðlaunanna 2023. Hún var einnig frumsýnd á Netflix sem stutt framhaldsþáttaröð í þremur hlutum og naut vinsælda.

Framleiðandi – Maria Ekerhovd

Maria Ekerhovd (f. 1975) er kvikmyndaframleiðandi og stofnandi Mer film, sem er eitt rótgrónasta kvikmyndaframleiðslu- og dreifingarfyrirtæki í Noregi. Frá árinu 2006 hefur hún framleitt og meðframleitt yfir 40 kvikmyndir og heimildarmyndir í samstarfi við bæði nýliða og reynda leikstjóra. Á meðal verka á ferilskrá hennar sem hlotið hafa alþjóðlegt lof eru Mot naturen eftir Ole Giæver (2014), sem tilnefnd var til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs, Hva vil folk si eftir Iram Haq (2017) og nú síðast Gritt eftir Itonje Søimer Guttormsen og De uskyldige eftir Eskil Vogt. Árið 2022 sló Krigsseileren eftir Gunnar Vikene í gegn svo um munaði í norskum kvikmyndahúsum og var framlag Norðmanna til Óskarsverðlaunanna 2023.

Á meðal þess fjölda mynda sem Ekerhovd hefur meðframleitt eru Every Thing Will Be Fine eftir Wim Wenders, La región salvaje eftir Amat Escalante og heimildarmyndin Flugt eftir Jonas Poher Rasmussen, sem hlaut þrjár tilnefningar til Óskarsverðlauna. Árið 2021 hlaut Ekerhovd meðframleiðandaverðlaun Eurimages.

Upplýsingar um myndina

Titill á frummáli: Krigsseileren

Alþjóðlegur titill: War Sailor

Leikstjóri: Gunnar Vikene

Handritshöfundur: Gunnar Vikene

Framleiðandi: Maria Ekerhovd

Framleiðslufyrirtæki: Mer Film

Lengd: 151 mínútur

Dreifing í Noregi: Scandinavian Film Distribution

Alþjóðleg dreifing: Beta Cinema