Alanngut Killinganni – Grænland

Alanngut Killinganni
Photographer
Freyer Sævarsson
Kvikmyndin „Alanngut Killinganni“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2023. Þetta er í fyrsta sinn sem grænlensk kvikmynd er tilnefnd til þessara virtu verðlauna.

Átta ár eru liðin síðan hið goðsagnakennda Qivittoq réðist á sex ungmenni í kvikmyndinni Qaqqat Alanngui. Tuuma er leiðsögumaður í Nuuk á Grænlandi og fer með ferðamenn í útsýnissiglingar. Á einni slíkri siglingu spyrja ferðamennirnir hvort þau geti farið á staðinn þar sem ráðist var á ungmennin, en Tuuma er tregur til þess. Þegar þau koma á staðinn reynast grunsemdir Tuuma á rökum reistar og tveir ferðamannanna hverfa. Tuuma siglir í snarhasti aftur til Nuuk til að kalla lögregluna til aðstoðar. En er ráðlegt að snúa aftur og leita að ferðamönnunum þegar fjallafólkið, Qivittoq, er á ferli í fjöllunum?

Rökstuðningur

Á sinn einstaka hátt byggir leikstjóri Alanngut Killinganni á frásögnum og goðafræði inúíta og blandar nútímafrásagnartækni við kímni og hrylling úr munnlegri frásagnarhefð Grænlendinga. Þannig verður helsta sérkenni myndarinnar hvernig grænlenskum frásögnum og goðafræði er fléttað inn í frásögnina á áreynslulausan hátt.

Grænlenskt landslag er líka einkennandi fyrir myndina, þar sem áhrifamikið útsýni yfir fjöll og sjó myndar stórkostlega leikmynd fyrir atburðarásina. Fagurt landslagið eflir tilfinninguna fyrir ótta og óróleika en bætir nýrri vídd við spennuþrungna atburðarás myndarinnar.

Viðfangsefni myndarinnar tengjast sorg, mannlegu samfélagi og hefðum. Það kristallast í árekstrum á milli menningarheima, þéttbýlis og dreifbýlis annars vegar og þess náttúrulega og hins dulmagnaða hins vegar, en einnig í virðingunni fyrir náttúru og sögu. Það leynast hlutir þarna úti sem við kunnum ekki skil á. Myndin er glæsilegt innlegg í nýlega hefð úr hinu háa norðri sem nefnd hefur verið „arctic chills“.

Handritshöfundur og leikstjóri – Malik Kleist

Malik Kleist (f. 1977) er klippari, handritshöfundur, leikstjóri og framleiðandi, fæddur á Grænlandi.Hann stundaði nám í kvikmynda-, sjónvarps- og fjölmiðlaframleiðslu í fjölmiðlaskólanum í Viborg á árunum 2000–2004.Hann hefur starfað sem tæknimaður í sjónvarpi frá 2001 og hóf störf við kvikmyndir árið 2009, þegar hann stofnaði fyrirtækið Tumit Production og síðar Imalik Film. Fyrsta kvikmyndin sem Kleist skrifaði og leikstýrði var spennumyndin Qaqqat Alanngui árið 2011. Næsta mynd hans, Unnuap Taarnerpaaffiani, sem hann skrifaði, leikstýrði, framleiddi, klippti, hljóðhannaði og litvann, kom út árið 2014. Þriðja myndin, Alanngut Killinganni – sem er framhald af fyrstu mynd hans – var frumsýnd á Grænlandi árið 2022.

Framleiðandi – Nina Paninnguaq Skydsbjerg

Nina Paninnguaq Skydsbjerg (f. 1985) er handritshöfundur, leikstjóri og framleiðandi og er stofnandi framleiðslufyrirtækisins PaniNoir í Nuuk.Nina Paninnguaq Skydsbjerg Hún er sjálflærð í faginu, hefur starfað í skapandi greinum í 13 ár og frá 2016 sem kvikmyndaframleiðandi – einkum við grænlenskar kvikmyndir og heimildamyndir. Hún hefur meðal annars framleitt sjónvarpsþáttaröðina Assiliiviup tunuani, sem fjallar um grænlenska kvikmyndagerð, grínmyndina Ukiutoqqami Pilluaritsi eftir Otto Rosing (2019) og spennumyndina Alanngut Killinganni eftir Malik Kleist, sem er framhald af fyrstu mynd hans frá 2011. Sem stendur vinnur hún að heimildarmyndinni Walls, sem framleidd er af Anorâk Film, ásamt meðleikstjóranum Sofie Rørdam.

Upplýsingar um myndina

Titill á frummáli: Alanngut Killinganni

Alþjóðlegur titill: The Edge of the Shadows

Leikstjóri: Malik Kleist           

Handritshöfundur: Malik Kleist                         

Framleiðandi: Nina Paninnguaq Skydsbjerg                           

Framleiðslufyrirtæki: PaniNoir / Imalik Film

Lengd: 112 mínútur

Dreifing á Grænlandi: QaqqatAlanngui

Alþjóðleg dreifing: Á ekki við Tenglar - á ekki viðMerkingar á samfélagsmiðlum: @QaqqatAlanngui (FB)