Öryggis- og friðarmál og viðbúnaður á Norður-Atlantshafi á dagskrá þegar Norðurlandaráð kemur saman í Færeyjum í apríl

07.03.24 | Fréttir
Danskt krigsskepp bland isberg
Photographer
Thomas Borberg
Hvernig geta norrænu löndin eflt samstarf sitt á sviði varnar- og öryggismála á Norður-Atlantshafi og Norðurskautssvæðinu og hvaða nýju tækifæri fylgja því þegar öll norrænu löndin eru orðnir aðilar að NATO? Þetta mun Norðurlandaráð ræða á árlegu þemaþingi sínu dagana 8.–9. apríl í Þórshöfn í Færeyjum.

Norðurskautssvæðið er mikilvægt svæði þar sem hætta er á að valdabarátta stórveldanna geti stigmagnast, einkum eftir innrás Rússlands í Úkraínu. Mikilvægt er fyrir norrænu löndin, ekki síst Ísland, Færeyjar og Grænland, að spenna á Norðurskautssvæðinu og Norður-Atlantshafinu verði áfram lítil.

„Í formennskuáætlun okkar leggjum við áherslu á öryggis- og friðarmál á Norðurheimskautssvæðinu. Það er mikilvægt að norrænum þingmönnum gefist færi á að ræða þær áskoranir sem ný staða í öryggismálum hefur í för með sér. Rússland er nágranni Norðurlanda og við vitum að spennan magnast á Norðurskautssvæðinu,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, forseti Norðurlandaráðs.

Það skiptir færeysku landsdeildina, sem er gestgjafi þemaþingsins í Þórshöfn, einnig máli að málefni Norður-Atlantshafsins séu á dagskrá.

„Þetta er í fyrsta sinn sem þemaþing Norðurlandaráðs er haldið í Færeyjum. Með tilliti til landfræðilegrar staðsetningar okkar í miðju Norður-Atlantshafi er ekki hægt að hugsa sér betra þema en „Öryggi, frið og viðbúnað í Norður-Atlantshafi“. Við hlökkum til að taka á móti norrænum vinum okkar,“ segir  Erling Eidesgaard, formaður færeysku landsdeildarinnar.

Endurskoðun Helsingforssamningsins til skoðunar

Á þemaþinginu mun starfshópur Norðurlandaráðs sem kannað hefur þörfina á því að uppfæra Helsingforssamninginn einnig kynna tillögur sínar. Á meðal þess sem hópurinn hefur rætt er varnarsamstarf og staða Álandseyja, Færeyja og Grænlands í norrænu samstarfi. Helsingforssamningurinn er stofnsáttmálinn sem kveður á um hvernig haga beri opinberu norrænu samstarfi. Hann var síðast uppfærður árið 1996 þegar Finnland og Svíþjóð fengu aðild að Evrópusambandinu.

Samstarf í samgöngumálum

Norrænt samstarf í samgöngumálum verður einnig til umræðu á þemaþinginu. Umræðurnar munu byggjast á nýrri úttekt á því hvernig samstarfinu er háttað núna og hvaða þarfir eru til staðar.