Um forseta Norðurlandaráðs

Forseti Norðurlandaráðs er kosinn til eins árs í senn. Forseti er valinn til skiptis frá löndunum eftir sérstöku kerfi.

Forseti Norðurlandaráðs er kjörinn á Norðurlandaráðsþingi á haustin. Forsetinn skal vera frá því landi þar sem næsta Norðurlandaráðsþing verður haldið. Formennskan eins og þinghaldið er á höndum landanna til skiptis eftir sérstakri reglu þar sem Danmörk er fyrst, þá Finnland, Noregur, Svíþjóð og Ísland. Formennska í Norðurlandaráði og formennska í Norrænu ráðherranefndinni er aldrei hjá sama landinu.

Forsetinn stjórnar fundum forsætisnefndar. Varaforsetinn tekur við í fjarveru forsetans. Forsetinn ber ábyrgð á undirbúningi funda forsætisnefndarinnar og annarra funda, þar með talið dagskrá, sem unnin er í samstarfi við framkvæmdastjóra ráðsins. Forsetinn á einnig að sjá til þess að forsætisnefndin geri framkvæmdaáætlun, að góð tengsl séu við þjóðþingin, grannsvæðin og alþjóðastofnanir sem skipta máli. Annað mikilvægt verkefni forseta Norðurlandaráðs er að kynna ráðið á ýmsum stöðum, bæði innan Norðurlandanna og á alþjóðavettvangi.